<$BlogRSDUrl$> <body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d5730663\x26blogName\x3dByrjun\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dBLUE\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://viktor78.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3den_US\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://viktor78.blogspot.com/\x26vt\x3d2737693256784172700', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>

Friday, February 25, 2005

Ef menn eru frá Skotlandi og heita James þá kunna þeir ekki að hnoða snjóbolta og hvað þá að kasta þeim fast. Ég er víkingur og ég get gelt menn með ofurkrafti mínum, í snjóboltastríði ber ég af.


Kveðið er fast því nú er snjórinn í algjöru hámarki hérna í paradísinni Sidcup. Trén taka stakkaskiptum er þau klæðast sínum hvítu kápum og standa enn tignarlegri en nokkru sinni í garðinum við gamla húsið þar sem vatnið liggur og gæsirnar vagga sér í leit að einhverju sem ekki er algjörlega grafið í snjóinn. Við sem erum með þykkari vetrarskráp en aðrir Evrópubúar fussum of sveium og segjum þetta ekkert merkilegt. Bíðiði bara þangað til frostið skellur á og þið farið að keyra um á hraðbrautinni keðjulaus, þá skuluð þið fara með bænirnar.

Hvernig sem á það er litið þá færist óútskýranleg ró yfir allt saman þegar fíngerður snjórinn læðir sér niður á jörðina, breiðir teppi yfir óstýriláta stórborgina sem orgar og öskrar, henni veitir ekki af smá ró. Allt færist miklu hægar úr sporunum þegar veðrið er óvenjulegt, jafnvel þegar það rignir þá hægist á öllu því menn eru ekki alveg með puttann eins vel á púlsinum, hann verður blautur og sleipur. Þó að það sé ekki frost þá er kalt engu að síður, ferskt og kalt. Eplakinnar og kakó eru eitthvað sem ég myndir fá mér ef slíkar búðir væru til hérna í Englalandi.


Stefnan er að spila fótbolta í Essex á sunnudaginn, rematch við hina spólgeðveiku East 15 njóla. Ég sótti um inngöngu þar á sínum tíma eins og allir vita og hef ég komið þangað uppí Epping Forest. Það tekur cirka 2 tíma að ferðast þangað Undur Grandinum og þess vegna var tekin sú ákvörðun að fara á vélknúnum bifreiðum sem allir verða að troða sér í. Við þurfum á fjórum að halda, erum að möndla það. En ef það heldur áfram að snjóa þá veit ég ekki hvað, allir geðveikt ákveðnir í að spila þrátt fyrir hvaða veðranda sem er, ég held þeir viti ekki hvað þeir eru að biðja um, mér finnst persónulega ekkert sérstakt að spila snjóbolta, með eindæmum auðvelt að renna og slíta nárann sinn. Maður verður bara að bringa logsuðuna með og hita sig vel upp.


Senuvinna fer í hönd og ég og hann Tom minn Hopper vinnum saman mano a mano. Ég held hún Jenny, lítil stelpa sem er actor/muso, vinni með okkur. Atriði úr Twelth Night, fyndið og gott. Tími kominn á að læra á hann Sjeikspír svona almennilega í eitt skip fyrir bát. Það er það sem er í gangi leiklega séð. Tímarnir eru bara annars komnir á fullt. Movement limber og og pure movement með honum Dan the Man. Hann er nátúrulega alltaf jafn kreisí, í gær var alveg nýtt fyrirbæri kynnt til sögunnar. Einhverskonar líkamsrúlla á fjórum fótum, rassinn fer niður til hægri og rúllar yfir til vinstri á meðan hausinn rúllar ákkúrat í hina áttina. Þetta var erfitt svo ekki sé meira sagt, engar armbeygjur í gærkveldi, þurfti þess ekki. Þetta er tjallendsj, þegar ég get þetta þá er það bara heimurinn.


Ekkert annað markvert er það kannski í bili, nema náttúrulega það að þorrablót Íslendinga er um helgina og ég fer náttúrulega.......ekki. Ef það er eitthvað sem ég forðast hérna úti þá eru það fullir Íslendingar. Hef alveg fengið góðan skammt af þeim í gegnum tíðina, svona aðeins. Ég bý nú með einum sem rennur aldrei af þannig að nei takk í þetta sinn. Eddi feiti mætir heldur ekki því hann á leik við Liverpool um bikar á sunnudaginn. Við fótboltamennirnir erum að spila þannig ekkert fyllerí skal haft.

Þannig ég segi bara skonsa og flatkaka og þorskalýsi og bingókúla. Veriði hlessa en ekki tröllskessa og haldiði síðan kjafti. XXXXXXXXXXXXXXXXXXX.

Wednesday, February 23, 2005

Sko það er ekki frost en það er svo kalt að það er ekkert hægt að djóka með það. Enda eru allir fótboltamenn að meiða sig, kuldameiðsli eins og þeir kalla það. Eins gott fara ekki í fóbó.


Það er algjör Meistaradeildarmanía í gangi núna. Hver leikur á fótum hins er leikur aldarinnar. Geðveikt í gær og geðveikt í kvöld. Ég er í smá breiki og hér kemur pistillinn.


Það eru skiptinemar í bekknum mínum, allir frá Eistlandi. Þrjár stelpur og einn strákur. Stelpurnar eru það hávaxnasta sem hefur sést hefur hér á landi og þótt Víðir úr Garði væri leitað. Ég segi það hérmeð og staðfesti að ein þeirra er hærri en ég og þá erum við farin að tala um einhverja 190 sentimetra. Strákurinn er líka hávaxinn en hann er jú bara strákur. Hann heitir Tonn en það er borið fram eins og Tinn eða Dean eða eitthvað þvíumlíkt. Kannski Tönn. Ég er búinn að vera að krakka alveg nokkra góða eins "þrjú Tonn af sandi" en það skilur mig barasta enginn þannig ég hvíli þá kannski aðeins lengur eða þangað til íslenska er orðin alheimsmálið mikla.


Það er byrjað að snjóa aftur og ég kvíði því að hjóla heim og því sem ég:

Bitur er hann bolinn sá/sem bítur í mig núna/Sólin skín ei skallann á/skólinn skekur trúnna.


Sjiiiitttt ég er orðinn of seinn í Fight Club og verð því að svífa. Glöggvum okkur aðeins á veðurstökunni og ef hún er nógu góð sendið hana Ómari Ragnarsyni og skráið mig á næsta Yrkinga Kyrkingamót sem haldið er Skarfaþingi hinu vestra.

Ble.

Monday, February 21, 2005

Það er kalt hérna, mjög kalt. Það snjóar í þessum rituðu stöfum, algjör ís í gangi. Ég forskalaðist alveg hreint í gær því ég fór í smá siglingu.


Já góðir hestar og baggar ég tók út smá túristapakka i gær og fór í siglingu á Thames ánni og svo í London Augað hið svakalega. Þannig er mál með vexti að ég á mér vinkonu. Hún er spænsk. Hún vinnur í auganu stóra og bauð mér í þennan æðislega pakka. Ég lærði ekkert smá mikið um allar byggingarnar sem eru við Thames ánna og bara sögu London og Englands svona í leiðinni.
Ok ok. Hún var einu sinni meira en vinkona mín þessi stelpa og eftir gærkveldið vill hún alveg örugglega ekki einu sinni vera það. Ekki meira um það því þetta er leiðinlegt mál.

Þessi bátsferð var algjör snilld og gaurinn á hljóðnemanum, sem sagði söguna, var hinn mesti spéfugl og snillingur. Hann þuldi upp staðreyndir um húsin og borgina af mikilli röggsemi og staðfestu og gerði mikið grín og gys, aðallega að stjórnmálamönnum og svona breskum rugludöllum. Eitt helvíti fyndið sem hann sagði þegar hann var að lýsa byggingunni þar sem Winston Churchill hafði gengið í skóla. Utan á henni voru styttur af fjórum merkum mönnum í sögu Englands. Og hann taldi upp: ".........John Milton, Isaac Newton and finally William SSSSSSShatner, oh no Shakepeare. Just seeing if you´re awake." Ég fílaði þennan og hló mikið. Algjör spéfugl enda lærður leikari. Mikið er um lærða leikara í vinnu hjá London Eye, örugglega svona helmingur starfsfólksins. Framtíðin maður.


Annars var farið á laugardaginn til Hannesar og Helgu í partí sem fylltist af íslendingum á nótæm. DJ Tryggvi da motherfucking hustler mætti á svæðið og svo Jón Gunnar við tvo aðra menn. Fjöldinn allur, farið niður í bæ, Old Street, sami súri klúbburinn, ekkert spes. Gist í Clapham Common og daginn eftir farið í fóbó við vandræðaunglingana í hverfinu Hannesi til ómældrar hræðslu. Enginn stunginn og enginn þurfti áfallahjálp, nema kannski strákarnir sem við unnum í fóbó, rústuðum þeim og það með einhvern dansara í sókninni.


Nó nó, nóg nóg. Ég er í breiki en ég þarf að læra líka smá þannig túrúlúlúluú og bless.

Thursday, February 17, 2005

Góðan dag. Ég var að koma frá lækninum. Búinn að búa hérna í eitt og hálft ár og ekkert "komið fyrir" mig, 7 9 13 bank bank bank kom inn. Tímabært að hætta að leika sér að eldinum.


Nemendur Rose Bruford fengu sendan tölvupóst um daginn þess efnis að faraldur Hettusóttar hefði hreiðrað um sig í Suð-austur London og menn ættu að standa klárir og vera varir um sig. Þar sem ég á bara circa 9 vikur eftir af þjálfun og hefðbundnum tímum í þessu námi mínu sá ég alveg fram á að eitt stykki sótt með hettu myndi alveg eyðileggja allt fyrir mér, allavega setja feitt strik í reikninginn.

Þannig ég sló mig til og lét skrá mig hjá heimilislækni sem er barasta aðeins neðar í götunni frá mér, hjóla fram hjá á hverjum degi á leið í skólann. Var semsagt hjá hjúkkunni núna áðan, er staddur á bókasafninu núna til að klára ritgerðina, og hún stakk rosalega feitri nál í handlegginn á mér. Bóluefni gegn, ég les á miðann: combined measles, mumps and rubella vaccine. Hún sagði að ég gæti orðið veikur eða fengið hita á næstu 5 til 12 dögum og svo eftir 21 dag gæti ég fengið einkenni Hettusóttar og orðið eitthvað sloj og bólginn. Er ekki bara betra að fá bévítans pestina í stað þess að verða sloj og foj marga daga í röð??? Ég bara spyr.

Ég var mældur. Ég heiti Viktor Már Bjarnason og ég var mældur. Ég er 26 ára gamall (eldri en ég hélt). Ég er 189 cm á hæð (hærri en ég hélt). Ég er 104 kíló á þyngd (þyngri en ég hélt). Ég blés í hólk sem mælir einhvernveginn astma í andadrætti, ég sagði henni að ég væri með smávegis skammt af astma. Ég fékk 3 tilraunir til að blása og að því loknu sagði hún: "Vááááááá, you must be very fit!!!!!!" því ég fékk 700 hundruð stig sem á víst að vera voða gott. Húrra fyrir pylsugerðamanninum, ég er fat......ég meina fit.

Mig langar að klára að skrifa þessa ritgerð í dag því ég "verð" að fara inn í London til að sjá leikrit sem actor/musicians eru að setja upp, Sweet Charity. "Verð" væntanlega að fara á morgun, hef ekki tíma til að krumpast í þessari ritgerð endalaust. Svo er víst partí hjá Hannesi, the dancing queer á laugardagskveldið. Partí og ekki partí, bara nokkrir íslenskir námsmenn og góðir ostar og rauðvín, ekkert kinkí, bara svona til að slaka aðeins á. Ef einhverjir Íslendingar eru að lesa þetta þá býr Hannes í Clapham Common og eru allir velkomnir og þaðan af verra. Ég sé ykkur bæ.


Að skrifa ritgerð er vond skemmtun. Þessi ritgerð kemur til með að innihalda mikla froðu. Foreldrar og forráðamenn vinsamlegast lesi þessa ritgerð ekki upphátt, því hætta er á froðufellingum.

Klukkan orðin hádegi og verð að skrifa. Bla bla bla bling bling bling bla. Blæ.

Wednesday, February 16, 2005

Í musteri lærdóms og visku tylli ég mér niður og lít út um gluggann, virði fyrir mér dúfu á þaki grámugga hversdagsleikans. Mistrið breiðir út faðm sinn og gleypir metrópólískt skrímslið sem veit innst inni að það er um seinan að hefta útbreiðslu sína. Í dag syngur rykugur lektor um horfnar færslur á hraðbrautum punktsins. Færslupunktsins. Færsluspotsins. Bloggpunktsins. Blogspotsins. BLOGSPOT!!!!!!! HANN GLEYPIR ALLT, ALLT SEM ÉG GEF HONUM. GLEYPIR OG GLEYPIR OG GEFUR EKKERT TIL BAKA. Þetta er eins og að eiga við smábarn.

Þetta var brot úr óútkomnu smásagnasafni, Þankaniðurgangur, sem er væntanlegt fyrir næstu jól.


Jú jú góðar hásinar ég er staddur á safninu bóka þar sem ég leitast við að geta byrjar á gerð þeirri er verður að rita. Hún skal fjalla á einhvern hátt um þá Brecht og Stanislavski og hvort Brecht sé ekki alveg örugglega úreltur og hvort leikara yfir höfuð séu ekki bara betur settir að notast við kenningar Stanna Slavska heldur en að vera að krukka í Brecht gamla. Hef ekki Jónas hvernig ég á að byrja á þessu epíska ritverki sem þessi gerð verður náttúrulega á endanum. Hún á að vera heil 3000 orð.


Ég las hjá Kjánanum að dagur einhleypra væri haldinn hátíðlegur á Ítalíu eða einhversstaðar í hinum ósiðmenntaða heimi. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Til dæmis um daginn lærði ég að því 1sti apríl er haldinn hátíðlegur á Spáni þann 28unda desember. Þá eiga allir að hrekkja eða ljúga, ég man ekki alveg. Það var allavega einhver gaur sem var alveg út úr því á Spáni í gamla daga og þessi dagur er víst kenndur við hann. Ég vissi að þetta gat ekki verið tilviljun með mig. Og allt þetta suðræna og seiðandi blóð sem streymir um æðar mínar sem gerir mig meira en lítið trítilóðan. Skýringin er loksins fengin á mér og mínum hátternum öllum saman. Ég er innst inni spánskur trúður sem fer um víðan völl og lýgur og hrekkir fólk. Ekki amaleg afmælisgjöf það.


Ég er semsagt bara í smá lestrafríi og get því sagt frá engu, meira en ég gat hér um daginn. Veriði sæl og hafiði hátt.

Monday, February 14, 2005

Sest ég nú fyrir framan tölvu í veri bókasafnsins, þetta hefur ekki gerst lengi vel. Allt er yfir staðið og þá meina ég allt og kominn er Valentínusardagur hvað svo sem það er.

Allir sem eru ástfangnir grípa tækifærið og verða ögn væmnari, ef það er hægt, og kaupa konfekt og blóm. Þeir sem eru það ekki verða bitrari og súrari en þeir eru vanalega og bölva og sóta þennan annars sólríka mánudag. Ég hata þennan dag. En verndari Melsteð United á afmæli í dag þannig að eitthvað er gott við hann. Til hamingju með daginn Elva.


"Sýningum" á Krítarhringnum í Kákasus lauk núna fyrir helgi og hver sem varð síðastur að sjá þessa sýningu er með heppnari mönnum því annað eins stórvirki í sögu leikhússins hefur ekki sést. Sýningar fóru fram í því fornfræga og rótgróna leikhúsi "The Barn" sem er í eigu Rose Bruford College í Sidcup í Kent. Átti þetta litla og skítuga rými vel við hráa og einfalda sýningu hóps 2 á 2. ári leiklistarfræða en sýndar voru alls 3 sýningar á þremur dögum því jú hóparnir voru alls 3.

Tónlistarleikararnir sýndu sýna eigin sýningu sem gekk undir nafninu "Black Blood" og var þar tónlistarsamruni hinn mesti á ferðinni og söguþráður var enginn. Hópur 1 leikara setti svo á svið "Man equals Man" en það er einnig eftir hinn margrómaða metsöluhöfund B. Brecht. Fór vel af
öllum sýningum og má Rósin Brúarfoss vera stolt af nemendum sínum því miðað aldur (meðalaldur 21 ár) og fyrri störf (aðallega kráarstörf) nemenda voru sýningarnar bara hinar sýnilegustu. En hvað veit ég, það eru crits núna klukkan hálf 1 og þá verður maður grillaður ásamt hinum kjúklingunum.


Ekkert meira er svo sem búið að vera á döfinni hjá mér þessa daganna. Eftir sýninguna á föstudaginn varð ég fyrir spennufalli lífs míns því álagið er búið að vera gífurlegt svo allt í einu er lokasýningin búin og allt álagið fyrir bí og maður svífur í tómi. Núna fer í hönd lestrarvika og næsta önn byrjar ekki fyrr en þann 21sta feb. Þá erum við að tala um Sjeikspír síson. Er kannski hægt að segja að þá fari tungan fyrst að vefjast um tönn, miðaldarenska hír æ kommm.

Ég þarf náttúrulega að gera ritgerð í þessu fríi mínu og á hún að fjalla um Brecht held ég, þannig sagt hef ég ekki alveg skilið við Brecht gamla Kolbeinsson. Svo þarf ég að lesa circa bát 5 sjeikspír leikrit, velja senur úr þeim til að vinna í við annan mann. Svo eru allir náttúrulega komnir í nýja hópa, búið er að skipta okkur upp enn eina ferðina. Það er náttúrulega gott og blessað mál, er ég ekki með neinum úr gamla hópnum mínum nema dadadadaadammmm Tom Hopper. Þetta þýðir að ég og hann Tommi minn höfum verið saman í öllum hópunum og er það vel því er mér vel við kauða.


Hvað get ég sagt?? Ég lofa bara að vera duglegri að blogga í framtíðinni og ég vil fá að skrá mig á námskeið hjá Braga B til að læra meira á þetta blogg allt saman, mig langar að geta sett inn myndir og svona. Bragi ef þú heyrir í mér þá er ég búinn að skrá mig og Liverpool sökkar.

Veriði helgimyndir og margblessuð. Bahaíar.

Sunday, February 06, 2005

Jæja börnin góð, ekkert heyrist frá kallinum og er það nokkuð miður. Nota ég þá tækifæri þetta til að stelast í annara manna tölvu og segi smá frá.


Törnin fer að klárast hjá mér sem betur fer en samt er lokaspretturinn eftir, á miðvikudaginn rennur svo "stóra stundin" upp þegar við sýnum svo ósköpin öll klukkan 11 um morguninn. Fróðlegt verður þetta allt saman og svoleiðis. Það er í mörg horn að líta fyrir mig svona á þessum seinustu metrum. Ég var beðinn um, af leikstjóranum, að láta alla karakteranna mína hafa sinn hreiminn hvern, þar á meðal Northern hreim, nánar tiltekið Yotkshire.

Ég er búinn að vera strögglandi við þann hreim og alla hina sem eru til dæmis cockney, RP (received pronounciation), skoskur og svo gamli góði íslenski hreimurinn sem kemur svona nokkur natúral. Ég er búinn að einbeita mér svo mikið að þessum hreimum öllum saman að karakterarnir mínir eru ekkert annað en misheppnaðir hreimar, talandi höfuð með lélegan hreim. Ég er búinn að vera núna í síðastliðinni viku að reyna að finna þessa menn alla og konur sem ég á leika, þetta er allt svo sem að skríða saman en einn er ekki enn kominn og það er dress rehearsal á morgun. Fokkittí fokk.


Um síðustu helgi var svo skemmtilegt partí hjá þeim Tom og Gi. Það var haldið heima hjá Tom en hann býr með þeim Rhys og Rob en sá síðastnefndi er algjör rokkari og á hann rafmagnsgítar og trommusett sem þeir geyma í skúrnum hjá sér. Það skal því sagt frá því að ég tók algjört trommusession og er ég ennþá að skola nostalgíu spíuna af mér því þarna varð ég 12 ára aftur og sveif til þeirra ára er ég átti trommusett sjálfur og sótti slagverkstíma hjá henni Eddu Borg upp í Breiðholt í hálft ár eða svo, entist aldrei í neinu.

Geðveikt gaman að slá á bumbur aftur og fá blöðrur á puttana. Það besta við þetta partí var að maður hékk ekkert allt of lengi þar og var kominn heim um 2 leytið. Tók ég svo næturstrætó til Blackheath þar sem öll líkin úr Svarta Dauða eru grafin, í þá gröf er nafnið sótt, draugalegur staður en samt doldið kósí.

Fótboltaleikur daginn eftir og það við East 15 leiklistarskólann, ég er víst enn á biðlista þar. Jafntefliskóngarnir í Inter Milan????? Nei, jafntefliskóngarnir í Rose Bruford!!!!!! Gerðum 2-2 jafntefli, það 3ja í röðinni. Siggi lét taka upp fyrir sig fyrri hálfleikinn á kameruna sína. Ég sá sjálfan mig á myndbandi spila fótbolta. Belja á svelli?? Ekki nógu djúpt í árina tekið. Ég held ég spili aldrei fótbolta aftur bara svona til að hlífa fólki við þessu sjónarspili.


Já þessi vika hefur verið svona í lengra laginu því ég fór í skólann í gær og var þar frá 10 til 4, leikstýran á kústinu alveg að missa sig og alla svörtu kettina sína. Maður er kannski svona aðeins farinn að finna fyrir þreytu í annarri stóru tánni, það verður alveg magnað þegar þessi törn er búinn, þá tekur náttúrulega við ritgerðarsmíð. Svo verða hóparnir sprengdir í loft upp og nýjir púslaðir saman fyrir Da Shakepeare Season sem hefst þann 21. febrúar. "Oh brother where art thou!!!!!!"


Svo að lokum óska ég henni mömmu minni til hamingju með afmælið í dag. Ég sendi þér bara kveðju á netinu mamma mín því ég var of seinn að fatta það að senda kort og svo eru blóm af netinu svo dýr og þú vilt ekki að ég sé að eyða í "vitleysu".


Segi það godot í billabong. Bleeeeeeeeeeeeeeeeeeeeee.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?