<$BlogRSDUrl$> <body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/plusone.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://draft.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d5730663\x26blogName\x3dByrjun\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dBLUE\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://viktor78.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3den_US\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://viktor78.blogspot.com/\x26vt\x3d2737693256784172700', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>

Thursday, November 24, 2005

Hvernig er það? Á bara að taka Evrópu með frostbitinu góða og ekki skilja neinn afgang eftir fyrir okkur hin?? Nú man ég hreinlega ekki hvernig kuldinn "hagar" sér á Íslandi en mikið asskoti er ég ekki að kaupa þennan raka kulda.


Hef flogið víða um Evrópu nú upp á síðkastið og alls staðar er kuldaboli í bílstjórasætinu og tekur á móti manni ásamt systrum sínum, þeim Frostrós og Grýlukerti. Og það fyndna við þetta er að Pólland var hvað hlýjast, ennþá þjáð af dreggjum kommúnismans auðvitað en samt svona í hlýrra lagi, allaveganna miðað við London og Norður Ítalíu. Er semsagt tiltölulega nýkominn heim frá Ítalíu þar sem stórtenórar og önnur villidýr voru sótt heim. Alli heitir drengur góður sem býr í flísalagðri íbúð í Piacenza þar sem mýkingarefnislykt ræður ríkjum nema þegar hann tekur rispu í eldhúsinu því þá ilmar allt af gúmmulaði.

Lenti semsagt á fimmtudaginn síðasta í Talíu eftir að hafa hlotið tuddadóma fyrir leik minn í ærslaleiknum farsakennda The Threesome, Clint hefði verið stoltur af sínum manni, fékk fyrstu einkunn fyrir frammistöðuna, mín fyrsta eðaleinkunn fyrir performans í skólanum og er ég ánægður mjög með það. Allaveganna lenti ég og Alli og Fran vinur hans frá Spáni og Glaskow voru ekki seinir að leiða mig fyrir söngmógúl þar sem þeir létu háum C-um rigna yfir múginn og manninn, náði samt að sofna í sófanum í litla herberginu þar sem regnið fór fram. Seiðandi tónar og þurrar linsur. Heim í batjelorpadið til að skipta út mýkingarefnislykt fyrir risottolykt, amminamm.

Skinka tekin á Parma daginn eftir og kaffi drukkið með eðalhjónunum Gissuri og Sigrúnu, þau búa vel við hliðina á hæusi þar sem besta kaffi í Evrópu er selt. Já góðir hálsar, maður drekkur nú kaffi eins og þjáð ljóðskáld sem situr á Kaffi Mokka og les Kafka, drekk það eiginlega bara þegar ég í heimsókn á Ítalíu, þar er líka alvöru kaffi ekki svartur magakrampi eins og kaffið á Íslandi ætti að vera kallað. Smá kaffihroki hlaupinn í kallinn. Allaveganananana þá var skinkað í Parma og farið svo í steik með smá mýkingarefniskeim á kantinum, mjög týpískur dagur á Ítalíu það.

Feneyjar teknar með trompi daginn eftir annað skiptið á ferlinum, fór í fyrsta skiptið í mars síðastliðnum og hafði ekki tíma til að tjilla almennilega þá þannig nú skildi maður aðeins tjillllllla betur. Fiskisúpa og tiramisu sem Alli mælti með var fyrst á dagskrá. Tiramisúan var eitthvað það besta sem ég hef látið upp í minn skolt sem skógarbjörn, alveg bráðn bráðn. Hinsvegar var súpan eitthvað mis. Hún var alveg bragðgóð og allt það en þeir voru eitthvað að mis þegar þeir hugsuðu um að gera fiskisúpu. Það er eins og þeir hafi haldið að þeir ættu að sjóða fiskinn í henni upp úr sjó því brimsaltara kvikindi hef ég ekki stungið tungunni ofan síðan ég tók við þessu prestsembætti hér í Welling. Og talandi um velling, fiskisúpan gott dæmi um velling. Vatnsglas takk.

Þannig Feneyjar frekar í saltara lagi, keypti þó góðan hatt og ef ég sé með hann þá verð ég ekki brim eins og súpa og ávallt hress í bragði af bráðnandi köku með keim af kaffi. Keypti líka eina litla grímu sem var svo lík karaktergrímunni minni sem ég vann með í skólanum, mér fannst hún svo skemmtleg, hún er í fýlu og alltaf að reyna að ráða öllu, gaman að henni. En þessi er bara lítil svo hún fer bara upp á vegg eða í hillu. Svo var það náttúrulega sunnudagurinn sem var aðal en þá fór náttúrlega Pílagrímur Jónsson í lítið ferðalag til Mílanó til að sjá leikinn með sínu félagi sem heitir Inter og spilar á San Síró. Þeir spiluðu við skinkurnar frá Parma og unnu þá fyrir strákinn sinn 2-0. Gaman mjög en hísús hvað það var kalt, keypti Inter-vettlinga og trefil og var það vel.


Mætti semsagt aftur í Londres á mánudaginn í brimsaltan súpukulda og er maður nú kappklæddur í alla staði inni sem úti. Ekki mikið í gangi í skólanum núna nema fightklúbburinn sem ég var að koma úr núna áðan, tvær vikur í próf þannig maður er að vinna að rútínunni með hinum velska Rhys. Talandi um rútínu, Kóngurinn og Nonni litli koma til landsins í fyrramálið og þá er öll rútína út um gluggann því Kónginum finnst lífið of stutt til að planleggja eitt né neitt. Mikið verður nú hlegið og dinglað dátt.

Svo náttúrulega flytjum við úr Setrinu á laugardaginn yfir í óskýrt hús í Eltham, nafn verður fundið síðar. Þannig nú fer hver að verða síðastur að koma í heimsókn í Setur sem hefur verið ritað á spjöld á sögunnar vegna geysivinsællar gleði sem hefur geislað þaðan í áraröð. Þess verður saknað og á það mikið ryksug og skúr skilið fyrir að vera gott Setur.


Allaveganna þá getur netið legið eitthvað niðri þannig ég blogga kannski ekki í bráð en síðan hvenær hefur netsamband komið því máli við? Skila bara kveðju til þeirra sem hlýddu og við verðum í bandi. Blix.

Sunday, November 13, 2005

Nú er ég snúinn aftur frá Evrópu hinni eystri, nánar tiltekið Póllandi, degi áður en ætlað var. Námskeiðinu, sem ég var á, var flýtt í gær um nokkra tíma þannig að ég náði flugi sem ég hafði pantað fyrr en ætlaði ekki að nota, löng saga.


Þannig að Pólland já Pólland, að baki er það og burt. Tilgangurinn var náttúrulega námskeiðið með Zigmund Molik eða DJ Ziggy Molika eins og hann er kallaður á kvöldin um helgar. Námskeið þetta var á vegum Grotowski Center í Wroclaw. Svo að fjallað sé um námskeiðið svona í stuttu og skorinortu máli þá skulum við segja að DJ Ziggy, sem er svona circa áttræður, lét alla viðtadda stjórna flugdrekum, fljúga eins og fugla, vaxa sem plöntur og vaða í vatni upp að mjöðmum svo að fátt eitt sé nefnt. Svo voru öndunaræfingarnar sem fólust aðallega í því að grípa andan á lofti og hvæsa svo hægt og rólega út um allar áttir með mikla grettu á andlitinu. Ekki var ég mikill aðdáandi þessa hluta rútínunnar hans Zigga.

Hinn hlutinn var raddlegs eðlis og ögn skárri. Þar vildi hann fá náttúrulegan víbring í raddir okkar með svona einskonar grígorísku söngli. Litli gamli hrumi Molika var einstaklega hljómfagur miðað við lítinn gamlan hruman skrokk. Maðurinn veit náttúrulega circa hvað hann er að gera, búinn að gera sömu rútínu frá því í kreppunni miklu, Grotowski sjálfur var náttúrulega hægri hönd DJ Molika. Þannig ég fann mig eilítið eitt betur í sönglinu heldur en í flugdrekaflippinu. Svo var hann svo hrifinn af mér af einhverjum átæðum, var alltaf að láta mig söngla einan og svo lét hann mig fljúgja nokkra mílur sem Örninn Gunnar svona rétt áður en ég steyptist inn í "hið óþekkta".

Ziggy kynnti semsagt fyrir okkur fyrirbæri eða ástand sem hann kaus að kalla "hið óþekkta". Þegar við værum búin að gera allar flugdrekaæfingarnar í smá tíma áttum við, ef við værum heppin, að fljóta inn í ástand þar sem við sæjum eitthvað sem ef til vill við höfðum upplifað eða eitthvað sem við værum að flýja eins og geislar sólarinnar o.s.frv. Aldrei komst ég að því hvað "hið óþekkta" var, þrátt fyrir það vildi DJ að ég flygi doldið fyrir framan alla og lenti svo og sönglaði og færi með Faðir Vorið en það var textinn sem ég notaði. Sumir í hópnum urðu alveg hreint fyrir trúarlegri upplifun og hreinlega kipptust til hægri vinstri og froðufelltu þessi líka reginnar býsn, minnti margt á samkomu hjá Benny Hinn sem ég fór á hér um árið.

Allaveganna varð ég fyrir vonbrigðum með þetta námskeið því ég hélt að það yrði mikið fýsískara, það var auðvitað ekki hægt því DJ Molika er náttúrulega pushing a hundred. Hún Gaby vinkona mín sem var með mér þarna var ennþá svekktari með þetta því hún hafði farið á námskeið hjá hópi í sömu borg sem heitir Son of the Goat og var það mikil fýsík og æfingar ýmis konar. Þannig þetta var doldið svona bö mjer. Pólland samt ágætt og fínt fólk á námskeiðinu, sumir dáldið high on life og wanky, tóku öllu því sem DJ Molika sagði eins og hinu heilaga orði, meistarinn segir og við gerum, doldið eins og trúarofstækishópur, hvítan í augunum geðveikt sýnileg því allir eru að hlusta svo mikið. Freeeeeeeekyyy azzzzzzzzzz.


Þannig ég er heima í London í freeeezzing kulda í húsinu sem ég fer bráðum að flytja úr, kominn með svona vott af kvefi um leið og ég kem til baka þannig ég er ekki í fótbolta í þessum rituðu orðum, bara hvíla. Bakið mitt er líka í fýlu út í mig því ég svaf á naglarúmi í Kennarahúsinu sem var svona doldið Sovéskt, borgaði samt bara sem svarar 2400 krónum fyrir fimm nætur sem er mjög gott. Vorum fjegur saman í hergergi sem var líka doldið svona Járntjaldískt, heitar og fínar sturtur samt. Herbergið var alveg funheitt allan tímann, kyndingin ALLTAF í gangi og ekkert sérstaklega kalt úti, bara svona ferskt fallegt haustveður, mikið kaldara í London. Pólverjar elskulegt fólk í alla staði, dáldið fúlt svona en ég meina kommon þetta er nú einu sinni Pólland. En nú búa svo margir Pólverjar á Íslandi að það er ekkert vitlaust að kunna pólsku, mjög fallegt tungumál þar að auki, og svo tassajellingarnar ekki slæmar heldur, öössssssssssss.


Ég segi þetta ekki dýpra í gili og bið ykkur um að vera vel stillt á Bylgjuna því þar hljómar Celine Dion svo fallega. Laters.

Sunday, November 06, 2005

Uppgefinn og örmagna en sæll og glaður. Lýsingarorð sem ég nota til að skýra frá líðan minni snemmkvölds þessa sunnudags. Gjörsamlega búinn á því.


Ég sit og stari út í myrkrið og inn í skjáinn til skiptis. Get varla haldið augunum opnum, kjánaprik að fara svona í fótbolta eftir svona mikla keyrslu. Var náttúrulega djammað í gærkvöldi þangað til að allt vit var komið á útsölubás hjá Rauða Krossinum, vaknaði ekki sem hressastur en fór samt sem áður út í regnið til að sparka í tuðru í eðju og leir. Er því nokkurn veginn alveg stjarfur núna úr þreytu. Og það fyndnasta við þetta allt saman er að ég er að fara í flug klukkan sjö í fyrramálið, er að fara til Póllands á námskeið. Maður er nú bara svona í yngri kantinum einu sinni eða svo þannig að þetta er í góðu.

Fyrir þá sem eru á hælunum þá kláraði ég farsann sem ég var í í gærkveldi. Fimm vikum eftir að við settumst niður saman og lásum leikritið fyrst yfir er þessu lokið, mikið búið að ganga á og mikið sem maður hefur lært og mikið búið að frussa á mann. Og núna tekur við nokkurs konar frí eða allavega tími frá skóla sem við eigum að nota í að vinna í BA ritgerðinni og svo framvegis. Það eina sem er eftir hjá mér þannig séð fram að jólum er að mæta í Fight Club á miðvikudagskvöldum og svo taka próf í því í desember og svo smá radíó í desember líka. Og svo flytja líka í nýtt hús, má ekki gleyma því. Plöggin eru send, nú er að bíða eftir samþykki. Krossiði ykkur fyrir mig.

Já já og sýningarnar á farsanum hófust á fimmtudaginn og lauk í gær með tveimur sýningum, matinee og kvöldsýningu, sýnum einungis fjórum sinnum sem er jú frekar lítið. Ég segi nú samt betur fer bara fjórum sinnum að þessu sinni því þetta er það erfiðasta sem ég hef gert á æfinni þó að sé ekki nema líkamlega og einbeitingarlega séð, algjört streð. Minn karakter, naziztinn muniði, var líkamlega og raddlega dómínerandi og þurfti alltaf að vera að lyfta öllum í sýningunni, taka konuna sína traustataki og bera hana um víðan völl oftar en einu sinni, svo þurfti hann að setjast með einhvern vesaling í kjöltuna og standa upp með hann í fanginu og bera hann smá spöl svona rétt áður en hann henti honum frá sér. Þannig líkamlega var þessi sýning mjög krefjandi fyrir mig sem og aðra í leikhópnum. En hún tókst svona líka vel og voru allir mjög ánægðir með hana og skemmtu sér konunglega þannig að takmarkinu var náð vonandi.


Er semsagt að fara til Poznan í fyrramálið og svo lest til Wroclaw þar sem Grotowski miðstöðin er og þar fer námskeiðið fram, verð í viku, væntanlega í fimbulkulda og massafrosti en kallinn er í tuddaformi þannig ég glími bara við bola af hörku. Svo er ég í ullarbol.

Blogga þegar ég kem heim. Ble og góða ferð. Takk.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?